Til baka

Hraun í Öxnadal - 14 gönguleiðir

Í Öxnadal við bæinn Hraun eru fjölmargar gönguleiðir, mislangar og á mismunandi erfiðleikastigi. Fjórar gönguleiðir eru stikaðar.

Gönguleiðir þær sem hér er lýst, hefjast allar við bæjarhúsin í Hrauni nema leið 14 (Hraundrangi.)
Fjórar fremur auðveldar gönguleiðir um láglendið hafa verið stikaðar með stikum í sömu litum og sýnt er á kortinu, bláar, rauðar, gular og grænar. 
Bæklingur um allar gönguleiðirnar og kort má finna hér  

Mælt er með að skoða öryggi á gönguferðum við undirbúning göngnu.

Nánari upplýsingar um gönguleiðir á svæðinu má finna í bók Bjarna E. Guðleifssonar Hraun í Öxnadal - Fólkvangur - (2014). Fyrir hverja gönguferð er tilgreindur áætlaður tími, hæðarmunur yfir sjávarmáli og erfiðleikastig áætlað sem flokkað er þannig:
erfiðleikastig 1 AUÐVELT
erfiðleikastig 2 KREFJANDI
erfiðleikastig 3 MJÖG KREFJANDI
Flýtið ykkur ekki um of og gefið ykkur tíma til að njóta þess sem er umhverfis ykkur

Um Hraun
Menningarfélagið Hraun í Öxnadal ehf. á jörðina.  Í Hrauni hefur verið innréttuð íbúð fyrir skáld, rithöfunda og fræðimenn og opnaður fólkvangur og útivistarsvæði fyrir almenning. Húsið er ekki opið fyrir almenningi, nema þegar það er auglýst sérstaklega.
Hér má fræðast um skáldið Jónas Hallgrímsson.

Bílastæði og aðkoma: 
Göngufólki er bent á að leggja bílum við túnið áður en komið er upp að bílastæðinu við Hraun. Í lagi er að ganga um hlaðið í Hrauni til að komast að gönguleiðunum. sem byrja flestar fyrir sunnan hlaðið/bílastæðið við Hraun.

WC og ruslatunnur:
Engin salernisaðstaða er á svæðinu né ruslatunnur og eru gestir því hvattir til að ganga vel um og skilja eins við svæðið og komið var að því. 

Gönguleiðir: 

1. Heimalandið, hraunin og Öxnadalsá, grænar stikur
Göngutími 2 klst.
Mesta hæð 280 m.
Erfiðleikastig 0,5.
Farið er frá íbúðarhúsinu upp að hrútakofanum og gamla hesthúsinu og hlöðunni, að stekknum ofan hlöðunnar. Farið er að „nýju“ fjárhúsunum og steinsteyptu hlöðunni, en í henni er ætlunin að gera sýningar- og fundarsal fyrir Jónasarsetur að Hrauni. Þaðan er gengið suður í hraunin niður að Öxnadalsá og niður með ánni að gömlu brúarstæðunum og rafstöðinni og að lokum upp að Háagerði, gömlum tóftum eftir kot eða sel og þaðan er gengið heim að bæ. Leiðin yfir hraunin er mjög gróf og stórgrýtt og þar þarf að ganga með varúð, en leiðin gefur góða mynd af því hvernig berghlaupshraun eru. 

2. Að Hálsi og upp að Hraunsvatni, gular stikur
Göngutími: 3,5 klst.
Mesta hæð 505 m.
Erfiðleikastig 2.
Gengið er niður fyrir bæinn og suður eftir eyrunum meðfram Öxnadalsá, yfir Hraunsá hjá Hálsi og þaðan er gengin leiðin frá Hálsi upp að Hraunsvatni. Til baka heim í Hraunshlað um hraunin.

3. Um Drangabolla að Hraunsvatni, rauðar stikur
Göngutími 4 klst.
Mesta hæð 560 m.
Erfiðleikastig 2.
Þetta er fegursta gönguleiðin að Hraunsvatni. Gengið er upp frá bænum í gróið dalverpi sunnan Urðarbrekku, Kisubrekku, en um dalverpið liggur fjárgata. Ofarlega í lægðinni eru allgreinilegar stekkjartóftir. Uppi undir hlíð Drangafjalls er lægð sem nefnist Drangabollar. Eftir bollunum er gengið til suðurs að Hraunsvatni og er þá komið á svonefnda Drangagrund. Farið er yfir urðarrana, Bríkarrima, sem gengur fram í vatnið og er þá komið á Vatnsgrund en þar rennur Hraunsá úr vatninu. Hún hverfur í urðina skömmu síðar. Frá Vatnsgrund er stefnan tekin niður með Hraunsá og niður hraunin heim að Hrauni.


Gönguleiðin á Wikiloc.com og hægt að skoða á Google Earth

4. Um Hraunsstapa, bláar stikur
Göngutími 3 klst.
Mesta hæð 560 m.
Erfiðleikastig 2.
Gengið er upp í Drangabolla, en efst í þeim eru stapar og er Arnstapi þeirra mestur. Gengið er suður staparöðina allt út á Brikarrima en þar er farið niður í gljúfur Hraunsár og gengið heim hraunin í Hraunshlað.

5. Um Draugadal í Einbúaskál
Göngutími 3 klst.
Mesta hæð 630 m.
Erfiðleikastig 1,5.
Gengið er upp frá bænum, en í stað þess að stefna á Kisubrekku, er farið upp næstu lægð norðan við og þegar komið er upp bröttustu brekkuna er stefnt fyrir suðurenda Einbúa og farið í Draugadal, sem er fjallsmegin við Einbúa. Gengið er norður eftir Draugadal og niður bratta brekku í Einbúaskál. Þar má njóta lífsins. Eftir hvíld þar er haldið aftur að Hrauni, fyrst til austurs úr skálinni og síðan sveigt til suðurs og stefnt beint heim að hlaði í Hrauni.

6. Á Einbúa Göngutími 3 klst.
Mesta hæð 684 m.
Erfiðleikastig 2.

Tekin er stefna í norðvestur á aðra lægð norðan við Kisubrekku og stefnt austan við Einbúa uns komið er í gróðursæla skál, Kúaskál. Haldið er upp bratta skriðu til norðvesturs úr skálinni og norður fyrir Einbúa. Gengið er á Einbúa að norðan og suður háhrygginn með Draugadal á hægri hönd. Heim má fara niður austurhlíð Einbúa, en þar eru brattar skriður og nokkrir klettar og er rétt að fara varlega. Þegar komið er niður úr hlíðum Einbúa er gengið eftir lítt grónum jökulurðum og fram af þeim heim að Hrauni.

7. Á Hallok (stundum nefnt Halllok)
Nyrsti hluti Drangafjalls heitir Hallok sem stundum er að vísu ritað með þremur ellum: Halllok.
Göngutími 4 klst.
Mesta hæð 990 m.
Erfiðleikastig 3.
Gengið er til norðvesturs frá bænum upp þriðju lægðina norðan Kisubrekku og stefnt í skarðið á Auðnahálsi við enda Drangafjalls. Úr skarðinu á Auðnahálsi er lagt til uppgöngu á Hallok. Um þrjá hryggi er að velja og er gengið upp miðhrygginn en um hann er fjárgata. Á leiðinni eru tveir klettahausar, sá neðri er torveldari. Gengið er upp hrygginn uns komið er á enda gróins og fremur auðgengins svæðis. Fram undan eru hvassbrýndir tindar sem nefnast Klasar. Klöngrast má með varfærni áfram vestanmegin á næstu tinda, en lengra verður ekki komist með góðu móti. Efst í Klösum kunna að vera skaflar og þar þarf að gæta varúðar. Sama leið er farin til baka. Þó má gera þá breytingu að fara um Einbúaskál og Draugadal heim að Hrauni.

8. Á Drangafjall (Háafjall)
Göngutími 8,5 klst.
Mesta hæð 1120 m.
Erfiðleikastig 3.
Fjallið milli Öxnadals og Hörgárdals nefnist Háafjall Hörgárdalsmegin en Öxnadalsmegin nefnist það Drangafjall. Drangafjallsnafnið er meira notað um norðurhluta fjallsins en Háafjall um suðurhlutann. Gengið er frá Hrauni um Drangabolla í Drangagrund og fram með Hraunsvatni að vestanverðu. Úr Sandskál koma tveir vatnslitlir lækir og falla þeir um klettabelti neðst. Best er að klifra upp klettana á milli lækjanna og þegar komið er upp í Sandskál er lagt upp norðurhlíð skálarinnar sem er nokkuð brött og skriðurunnin. Þægilegast er að fylgja grasgeiranum sem nær hæst upp í hlíðina. Þegar upp er komið er gengið norður eftir sléttu fjallinu, sem fyrst lækkar svolítið til norðurs en hækkar svo aftur. Við norðurendann er það hæst. Nær Hraundranga verður ekki komist þessa leið. Sama leið er farin til baka að Hrauni, nema menn stytti leiðina og fari yfir hraunin heim að bænum.

9. Um Auðnaháls yfir í Hörgárdal
Göngutími 3 klst.
Mesta hæð 550 m.
Erfiðleikastig 2.
Gengin er sama leið frá Hrauni og lýst er gönguleið 7. Þegar komið er í skarðið á Auðnahálsi blasir Hörgárdalur við og einnig sést inn í Myrkárdal. Til að komast niður klettabeltin í skeiðunum í Hörgárdal er stefnt örlítið út dalinn með stefnu á eyðibýlið Bás.

10. Um Kiðlingsdal yfir í Hörgárdal
Göngutími 9 klst.
Mesta hæð 1060 m.
Erfiðleikastig 3.
Gengið er um Drangabolla frá Hrauni, eins og lýst er í gönguleið 3, og er gengið inn með Hraunsvatni vestanverðu. Er gengið eftir fjárgötum undir hlíðum Sandskálarhnjúks. Þegar styttist í Kiðlingsá geta menn lagt skáhallt í hlíðina upp í dalsmynnið. Þegar ofar dregur opnast dalurinn. Fyrir botni hans, í suðvestri, er Háafjall, að því er virðist auðgengið og einnig er vel fært til norðurs á Sandskálarhnjúk. Við stefnum hins vegar meira til vesturs í skarðið norðan við áberandi strýtuhnúð. Farið er niður í Grjótárdal norðan við strýtuna og best er að ganga spöl inn eftir hjalla í Grjótárdal vegna þess að nokkuð bratt er niður af honum utar. Síðan er stefnt út og niður Grjótárdal, út Hörgárdal að Staðarbakka, en þar er brú á Hörgá.

11. Um Bessahlaðaskarð yfir í Öxnadal
Göngutími 8 klst.
Mesta hæð 1000 m.
Erfiðleikastig 3.
Styst er að ganga frá Hrauni um hraunin að Vatnsgrund og þaðan inn með Hraunsvatni austanverðu, en þar liggja ágætar fjárgötur. Gengið er inn dalinn austan ár undir Þverbrekkuhnjúki. Dalbotninn smáhækkar og þegar innar dregur er sveigt til austurs og stefnt í Bessahlaðaskarð sem er sunnan við syðsta enda hnjúksins, Grjótskálarknjúk, sem skiptir skarðinu. Best er að forðast Grjótskálina sem er leiðinleg yfirferðar. Síðan er haldið niður í Öxnadal úr Bessahlaðaskarði, en þar er allbratt. Stefni menn á þjóðveginn um Öxnadal er rétt að halda sig sunnan við lækinn, sem brátt verður að lítill á, Skarðsá. Ekki er þó ráðlegt að fara mjög sunnarlega vegna klettabelta. Ætli menn hins vegar að ganga út að Hálsi eða Hrauni, sem er býsna langt, er farið niður norðan við Skarðsá, og þá verða menn að lækka sig mikið til að komast yfir gil sem á leiðinni verða.

12. Á Þverbrekkuhnjúk
Göngutími 9 klst.
Mesta hæð 1206 m.
Erfiðleikastig 3.
Gengið er frá Hrauni yfir hraunin og síðan fram Vatnsdal eins og lýst er í gönguleið 11. Þegar komið er upp í Bessahlaðaskarð er stefnt til norðurs austan við áberandi hnjúk sem er norðan við skarðið. Grjótskálarhnjúk, sem er stórgrýttur sem og skálin. Þegar komið er upp á flatann er greið leið eftir flötum flám. Þarna eru menn í raun á Bessahlaðahnjúki. Farið er upp tvö þrep og þegar komið er upp nyrðra þrepið er komið á Þverbrekkuhnjúk, sem er norðan við Bessahlaðagil í Öxnadal. Á bakaleiðinni er rétt að líta niður í Bessahlaðagil. Síðan er farið niður í Bessahlaðaskarð eins og lýst er í 11. gönguleið.

13. Um Vatnsdal yfir í Gilsgil í Öxnadal
Göngutími 11 klst.
Mesta hæð 1170 m.
Erfiðleikastig 3.
Gengið er frá Hrauni og fram Vatnsdal eins og lýst er í gönguleið 11. Þegar komið er á móts við Bessahlaðaskarð er stefna tekin á Vatnsdalsbotn austanverðan. Þar eru jökulfannir, en vilji menn losna við snjóinn má síðsumars ganga upp urðina utan í Varmavatnshólafjalli. Þegar upp kemur verður fyrir háslétta og liggur beinast við að ganga niður í svonefnd Grjótárdalsdrög og niður í Gilsgil í Öxnadal. Grjótárdalsdrögin eru kennd við Grjótárdal, öðru nafni Vestmannadal, sem opnast niður á Öxnadalsheiði, og þangað má einnig ganga svo og um Víkingsskarð yfir á Hörgárdalsheiði.

14. Á Hraundranga
Klifurtími 7 klst.
Mesta hæð 1075 m.
Erfiðleikastig 3,5.
Þetta er fremur klifurleið en gönguleið. Venjulega er gengið á Hraundranga úr Hörgárdal en ekki Öxnadal. En úr Hörgárdal er auðveldari leið, fyrst upp þægilega grasgeira. Lagt er upp á móts við brúna að eyðibýlinu Nýjabæ. Hlíðin er vel gróin og auðgengin. Þegar komið er í stærsta skarðið opnast sýn í Öxnadal, en þar niður er allt að 700 m þverhnýpi. Þarna hefst klifrið og er farið upp norðurhlíð drangans. Klettaveggurinn er nokkuð laus í sér og varast þarf grjóthrun. Tindurinn er flöt berghella um það bil 4x1,50 m og uppi á henni eru þrjú grettistök um 1 m2 hvert. Má því segja að tindurinn sé um 3 m2 . Að lokinni dvöl á tindinum er sigið niður með norðurhlið Drangans allt niður í skarðið og þaðan er rölt niður í Hörgárdal.