Til baka

Súlur

Súlur eru bæjarfjall Akureyrar, fjallstindar sem rísa yfir bænum í suðvestri. Vinsæl gönguleið liggur upp á tindana og tekur gangan um 4.5-6 klukkustundir fram og til baka. Nær Akureyri rís Ytri-súla en litlu sunnar er Syðri-súla sem er hærri, eða 1.213 metrar. Súlur eru að mestu gerðar úr ljósu líparíti sem á uppruna í Öxnadalseldstöðinni, sem var virk fyrir 8-9 milljónum ára.

Ekið er upp Súluveg og gengið frá bílastæðinu sem er við enda vegarins í Glerárdalnum.

Hægt er að velja um nokkrar leiðir upp á fjallið. Algengast er að ganga upp frá bílaplaninu sem komið er á ef Súluvegurinn er ekinn til enda og er það leiðin sem hér er kynnt. Athugið að frá bílastæðinu við Súluveg er upphaf fleiri gönguleiða m.a. inn að Stíflu, Lamba og upp á Fálkafell. Mikilvægt er því að horfa vel á skilti þegar lagt er af stað.

Gönguleiðin upp á Súlur byrjar við lækinn fyrir sunnan bílastæðið. Þar er strax eftir lækinn tekin stefna upp tröppur upp á litla hæð og þaðan áfram að girðingu og tröppur yfir hana. Þaðan liggur leiðin síðan eftir fjárgötum og stígum alla leið upp á Súlur. Leiðin er stikuð.
Athugið að gönguleiðin liggur um töluvert af móa og mýrum og má búast við bleitu víða á leiðinni þótt Ferðafélag Akureyrar hafi byggt planka-brýr yfir verstu bleitusvæðin. Mælt er með góðum skóm og göngustöfum á þessari leið.

Lengd (fram og tilbaka) 10.471 m
Hækkun 905 m (byrjað er í 274 m)
Hægt er að nota gönguappið wapp.is til að fræðast, skoða leiðina og fylgjast með framgangi göngunnar og staðsetningu í rauntíma. Leiðin er ókeypis í appinu.

Mælt er með að skoða öryggi á gönguferðum áður en lagt er af stað í gönguferðina.

 

Nánari upplýsingar

Lengd: 10 Km

Tími: 4.5-6 klst

Undirlag: Kindagötur, moldar og grýttir stígar, snjór efst í hlíðinni.

Upphaf/Endir: Við bílastæðið við Súluveg

Bílastæði: Bílastæðið við Súluveg

Áhugaverðir staðir: Stórfenglegt útsýni yfir bæinn, fjörðinn, dali og fjöll.