Til baka

Ystuvíkurfjall

Greiðfær gönguleið um gróið land að fjallinu sem býður upp á gott útsýni yfir fjörðinn meðfram þverhníptri vesturhlíð fjallsins.

Gönguleiðin hefst við bílastæðið efst í Víkurskarðinu (norðan við veginn), þaðan er gengið í vestur (í átt að Eyjafirðinum). Skilti er við upphaf leiðarinnar og gular stikur varða leiðina.

Eftir að hafa gengið stuttan spöl í gegnum móa frá bílastæðinu er komið inn á smá vegslóða sem liggur upp að litlum kofa og mastri sem staðsett eru upp í hlíðinni. Þaðan tekur við götuslóði / kindagata sem liggur um nokkur minni gil og eftir hlíðinni, áfram undir Hrafnabjörgum og niður í dalverpi og áfram upp á  Ystuvíkurfjalli. Toppurinn er í 552 m hæð og þar er varða og gestabók.

Frá toppnum er gott útsýni yfir fjörðinn, til suðurs eftir ströndinni til Akureyrar og út fjörðinn að Kaldbaki og Hrísey.


Heildarvegalengd er um 7 km. Gangan byrjar í um 300 metra hæð og er hækkunin því um 250 m.

Mælt er með að skoða öryggi á gönguferðum áður en leiðin er gengin.

 

 

Nánari upplýsingar

Lengd: 7 Km (fram og tilbaka)

Tími: 3 -4 klst

Undirlag: Moldargötur og melar

Upphaf/Endir: Bílastæðið efst í Víkurskarði

Bílastæði: Bílastæðið efst í Víkurskarði

Áhugaverðir staðir: Ystuvíkurfjall, varðan og stórfenglegt útsýni. Gott berjaland á haustin