Til baka

Akureyrarvaka 28. - 30. ágúst 2020

Akureyrarbær hefur ákveðið að aflýsa Akureyrarvöku árið 2020 en hún var fyrirhuguð 28.-30. ágúst. Er það gert til að sýna ábyrgð í verki, bregðast við tilmælum sóttvarnalæknis og þróun Covid-19 faraldursins í samfélaginu.

Þetta þýðir að allir stærri og minni viðburðir sem fyrirhugaðir voru falla niður. Það er Akureyrarstofa sem annast skipulag Akureyrarvöku og þar á bæ er unnið að því að minnast afmælis bæjarins með uppákomum sem taka fullt tillit til fjöldatakmarkana og fjarlægðarmarka. Stefnt er að því meðal annars að lýsa upp svæði og byggingar í bænum, gangandi og akandi bæjarbúum og gestum til yndisauka. Þannig verður Lystigarðurinn lýstur upp og skreyttur eins og undanfarin ár og áætlað að ljósin fái að lifa þar út septembermánuð.

Hægt er að skoða dagskrá afmælis Akureyrarbæjar 2020 HÉR

 

Akureyrarvaka er árleg bæjarhátíð, sem haldin er helgina sem er næst afmæli Akureyrarbæjar þann 29. ágúst. Árið 2020 mun hátíðin standa í þrjá daga í stað tveggja, 28.-30. ágúst, vegna breyttra aðstæðna.

Óskað er eftir þátttöku bæjarbúa í komandi afmælisveislu Akureyrarbæjar og er hún tilvalið tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að láta ljós sitt skína í fjölbreyttum viðburðum helgarinnar. Verkefnastjórn Akureyrarvöku er í höndum Sigríðar Örvarsdóttur og Almars Alfreðssonar og taka þau við hugmyndum, fyrirspurnum  og öðrum ábendingum á netfangið akureyrarvaka@akureyri.is eða í síma 460-1157.

Síðasti dagur til að vera með í prentuðu kynningarefni er 10. ágúst. Hægt er að senda inn efni til þátttöku í netútgáfu til og með 25. ágúst

*Vakin er athygli á að áfram verður farið eftir viðmiðunum og settum reglum almannavarna, varðandi fjöldatakmarkanir, vegna Covid-19. Þá skal tveggja metra nándarreglan virt eins og hægt er og áfram er almenningur hvattur til sérstaks hreinlætis og handþvottar.

Heimili Akureyrarvöku á samfélagsmiðlum er að finna á facebook síðu Akureyrarbæjar og á Instagram. Einnig hvetjum við gesti Akureyrarvöku til að nota myllumerkin #akureyrarvaka #hallóakureyri og #akureyri