Til baka

Ungskáld

Dagskrá 2021

Orð unga fólksins - Ungskáld 2013-2021

Á sýningunni Orð unga fólksins á Glerártorgi eru þau verk sem unnið hafa til 1. verðlauna í Ungskáldasamkeppninni frá upphafi. Textarnir endurspegla mikla fjölbreytni, mikið hugvit, skarpa hugsun og kraftmikla sköpunargáfu unga fólksins.
Sýningin stendur frá 17. september til 28. október.

Ritlistasmiðja Ungskálda

Laugardaginn 23. október frá kl. 10.00-15.30 verður ritlistasmiðja Ungskálda haldin í Menntaskólanum á Akureyri. Markmiðið er að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára því að kostnaðarlausu. Fyrri hluta dags leiðir rithöfundurinn Fríða Ísberg vinnuna en eftir hádegi verður unnið undir leiðsögn Dóra DNA rithöfundur. Þátttakendum verður boðið upp á létt hádegissnarl frá kl. 12.30-13.00.
Skráningarfrestur útrunninn.
Viðburður á Facebook HÉR

 

 

Nánar um leiðbeinendur:

Halldór Laxness Halldórsson, f. 1985, betur þekktur sem Dóri DNA, er íslenskur leikari, rithöfundur og uppistandari. Halldór skrifaði og lék í leikritinu Þetta er grín án djóks, ásamt Sögu Garðarsdóttur sem sett var upp af Menningarfélagi Akureyrar árið 2015. Sama ár gaf hann út ljóðabókina Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir, en hún var tilnefnd til Menningarverðlauna DV árið 2016. Bókin hefur nú komið út í Þýskalandi. Haustið 2019 kom út fyrsta skáldsaga Dóra DNA, Kokkáll. Útgefandi er Bjartur. Bókin var ein af tíu söluhæstu skáldsögum landsins í jólabókaflóðinu.
Undanfarin misseri hefur Dóri unnið að sinni næstu skáldsögu, leikritinu Þéttingu hryggðar, sem frumsýnt var í Borgarleikhúsinu nýverið, og ýmsum kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum.

Fríða Ísberg, f. 1992, lauk grunnprófi í heimspeki og meistaraprófi í ritlist við Háskóla Íslands. Hún vakti mikla athygli fyrir ljóðabækur sínar, Leðurjakkaveður og Slitförina, en sú síðarnefnda hlaut meðal annars Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana og var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna. Smásagnasafnið Kláði var tilnefnt til sömu verðlauna auk Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Fríða er ein af Svikaskáldum sem sent hafa frá sér þrjú ljóðverk og staðið fyrir margháttuðum viðburðum tengdum ljóðlist. Fyrsta skáldsaga hennar, Merking, er væntanleg um miðjan október.

Ritlistasamkeppni Ungskálda

Samkeppnin er fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára á Norðurlandi eystra. Vegleg peningaverðlaun eru veitt fyrir þrjú efstu sætin. Engar hömlur eru settar á hvers konar textum er skilað inn, hvorki varðandi efnistök né lengd. Textarnir þurfa að vera á íslensku og mælt er með að þeim sé skilað á PDF- eða Word-formi.
Skilafrestur er til miðnættis þriðjudaginn 16. nóvember 2021 á netfangið ungskald@akureyri.is.

Ritlistakvöld Ungskálda

Þriðjudagskvöldið 7. desember kl. 20.00 verður kaffihúsakvöld Ungskálda haldið á Ketilkaffi í Listasafninu á Akureyri. Kvöldið er ætlað ungu fólki á aldrinum 16-25 ára sem hefur áhuga á ritlist. Frábært tækifæri til að hitta önnur skáld, kynnast verkum þeirra og jafnvel lesa upp sín eigin verk. Kaffi, kakó og kökur í boði fyrir gesti.

Úrslit í ritlistakeppni Ungskálda

Fimmtudaginn 9. desember kl. 17.00 tilkynnir dómnefnd úrslit í ritlistasamkeppni Ungskálda 2021 í Amtsbókasafninu á Akureyri.

 


Ungskáld er verkefni á Akureyri sem gengur út á að efla ritlist og skapandi hugsun hjá ungu fólki á aldrinum 16-25 ára.

Verkefnið hófst árið 2013 og það eina sinnar tegundar á landinu. Staðið er fyrir ritlistakeppni þar sem veitt eru peningaverðlaun fyrir efstu þrjú sætin. Engar hömlur eru settar á texta, hvorki varðandi efnistök né lengd. Þeir þurfa þó að vera á íslensku.

Til þess að styðja við áhugasama um að skila inn texta/textum er boðið upp á námskeið í skapandi skrifum og skapandi hugsun, þar sem leiðbeinendur koma úr ólíkum áttum. Sem dæmi var síðustu ár leitað til Andra Snæs Magnasonar, Kött GráPjé og Bryndísar Björgvinsdóttur.

Einnig hefur ritlistakvöldið slegið í gegn en þar er gestum boðið upp á veitingar, upplestu og tónlistaratriði. Tilvalin vettvangur til að mynda tengsl í gegnum ritlistina.

Í nefnd Ungskálda eru fulltrúar frá Akureyrarstofu, Verkmenntaskólanum á Akureyri, Menntaskólanum á Akureyri, Ungmennahúsinu í Rósenborg og Amtbókasafninu

Verkefnið er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra og Akureyrarbæ.

 

 

Nánari upplýsingar

ungskald@akureyri.is

Sími: 460-1157