Til baka

Barðsnef

Mynd af skiltinu  /  Picture of the sign

Íslenskur texti
English text 

Barðsnef

Mynd af skiltinu
Hér sló hjarta bæjarins um skeið, þó ekki lengi. Í Hvammi (byggt 1895) bjó amtmaður og seinna sýslumenn enda húsið löngum kallað Sýsló. Í kjallaranum var vatnsbrunnur er þótti mikið framfaraspor því ekki þurfti þá lengur að bera vatn inn í húsið.

Samkvæmt mælingu var miðja kaupstaðarins á Barðsnefi og var því árið 1900 reistur barnaskóli á nefinu til að mismuna ekki börnum er bjuggu í tveimur aðalhverfum bæjarins er þá voru Akureyri (Innbærinn) og Oddeyri. Í Barnaskólanum stýrði byltingarkonan Halldóra Bjarnadóttir skólahaldi (1903-1918) og innleiddi nýjungar, m.a. handavinnukennslu og litlu jólin, kom upp skólabókasafni og fyrirskipaði nemendum að ganga um skólann á inniskóm. Hún hvatti foreldra til að mæta í kennslustundir með börnum sínum og kennara til að heimsækja heimilin, hélt foreldrafundi og stofnaði foreldrafélag.

Góðtemplarar byggðu Hafnarstræti 57 og vígðu 23. desember 1906. Húsið var lengi kennt við þá og kallað Góðtemplarahúsið eða einfaldlega Gúttó. Seinna fékk það nafnið Samkomuhúsið, stundum líka kallað „hús fólksins“ enda starfsemin innandyra afar fjölbreytt. Þar mátti finna um lengri eða skemmri tíma póstafgreiðslu, skrifstofur bæjarins, fundarsal bæjarstjórnar, félagsmiðstöð templara, bíó og Amtsbókasafnið. Þar voru haldnir almennir fundir, fyrirlestrar og dansleikir, kosningar til bæjarstjórnar og Alþingis fóru þar fram, margskonar félagasamtök fengu þar inni fyrir fundi sína og þegar Friðrik konungur VIII heimsótti Akureyri árið 1907 var honum að sjálfsögðu boðið til stórfenglegrar veislu í glæsilegustu byggingu bæjarins, Góðtemplarahúsinu. Leikhús hefur verið í Samkomuhúsinu síðan 1907.

Norðan við Samkomuhúsið er stígur upp á brekkuna og heitir Menntavegur ef hann er genginn upp, annars Glötunarstígur.

Á Sjónarhæð (byggt 1901) bjó lengi trúboðinn Arthur Gook, mikill hæfileikamaður og frumkvöðull, hann innleiddi meðal annars knattspyrnu á Akureyri og var í flokki upphafsmanna að útvarpsrekstri á Íslandi.  Um hann sögðu Akureyringar að ekkert gerðist markvert nema Guð lofaði og Gook vildi.

Árið 1917 seldu Góðtemplarar bænum Samkomuhúsið og 1926 byggði reglan Skjaldborg, Hafnarstræti 67, í samvinnu við Ungmennafélag Akureyrar. Þar var bíó. Raunar er Barðsnef sannkallað „bíónef“. Tvö kvikmyndahús hafa staðið þar, Samkomuhúsið og Skjaldborg, auk þess sem fyrsta sérbyggða bíóhúsið á Akureyri (Hafnarstræti 73) er þar sem nefið fjarar út að norðanverðu. Merkasti viðburður á „bíónefinu“ var þó hinn 27. júní 1903 þegar þar fór fram fyrsta kvikmyndasýning Íslandssögunnar. Norðmenn stóðu fyrir henni en sýnt var í samkomuhúsi templara er stóð á sömu lóð og Samkomuhúsið seinna.


Barðsnef

Picture of the sign
This area is known as Barðsnef, once considered as a possible site for a new town centre; it was the home of the Regional Governor (from 1895), Akureyri Primary School, the theatre and the post office. The years 1903-1918 saw many changes for the school, as headmistress Halldóra Bjarnadóttir introduced many new ideas; the teaching of handwork, establishing a school library, Little Christmas, and the use of slippers in school. She founded a Parents'Association and encouraged parents to attend lessons and teachers to visit pupils in their homes. The building which now houses the Akureyri Drama Society was built by Good Templars in 1906 and named Gúttó. Also known as "The people's house", it housed the Municipal Offices, Post Office, Council board rooms, cinema and library. It was the headquarters of the Good Templars and acted as a polling station for all elections, a venue for social groups, lectures and dances. King Frederik VIII attended amagnificent banquet there in 1907. On 27 June 1903, in Barðsnef, amoviewas shown for the first time in Akureyri, in a building which no longer exists.