Til baka

Oddeyrin

Mynd af skiltinu  / Picture of the sign 

Íslenskur texti
English text

Oddeyrin

Þú ert á Oddeyri, sem er annar elsti bæjarhluti Akureyrar. Eyrin er mynduð af framburði Glerár og fékk nafnið Oddeyri eftir lögun sinni. Nafnið kemur fyrir í fornum heimildum, meðal annars Víga-Glúms sögu sem rituð var á 13. öld. Þar segir frá því þegar Glúmur fór á eftir fjandmönnum sínum frá Hrísey „inn allt að Oddeyri“. Annars var eyrin til lítils gagns lengi vel nema til þinghalds en Oddeyrarþings er fyrst getið í annálum snemma á 14. öld. Hið síðasta slíkra þinga var líkast til haldið árið 1551. Þá lágu tvö herskip á Pollinum en hermenn gengu á land að bæla uppreisn hins kaþólska Jóns Arasonar Hólabiskups sem var að vísu hálshöggvinn árið áður. Ekki kom til átaka en allar eignir voru dæmdar af hinum látna biskupi og þingheimur látinn hylla konung og arftaka hans. Löngu seinna eða 1874 var þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar fagnað á Oddeyri.

Deilt var um hvort Oddeyrin væri hæf til búsetu. Þar skorti drykkjarvatn og Gleráin var í foráttuvexti mikill ógnvaldur allri byggð þegar hún flæmdist um eyrina og rann út í Pollinn. Engu að síður úrskurðuðu yfirvöld í Kaupmannahöfn árið 1866, að beiðni bæjarfulltrúa Akureyrar, að Oddeyri skyldi framvegis tilheyra Akureyrarkaupstað.

„Oddeyri er skilgetið afkvæmi Glerár. Það voru Danir sem fyrst hugleiddu hvort ekki ætti að leggja eyrina undir Akureyri, höndlunarstaðurinn væri orðinn svo aðkrepptur með landrými. Skipuð var nefnd í málið, fimm valinkunnir bæjarbúar, og er skemmst frá því að segja að fjórum nefndarmanna leist afar illa á hugmyndir um að stækka Akureyri út á Oddeyri. Væntanleg byggð þar yrði aldrei óhult fyrir sjónum né Gleránni. Líkast til væri heldur ekkert drykkjarvatn að hafa á eyrinni og síðast en ekki síst, löng og ógreiðfær leið væri á milli eyranna tveggja, Akureyrar og Oddeyrar, og því allt eins líklegt að úr yrðu tveir höndlunarstaðir. Nei, við skulum fremur stækka bæinn í suður, sögðu fjórmenningarnir.

Fimmti nefndarmaðurinn var Björn Jónsson ritstjóri. Hann sá eintóma kosti við eyrina fyrir utan þann eina að þar væri meiri vindnæðingur. Á móti kæmi að mun víðsýnna væri af Oddeyrinni og menn þar því í „meira sambandi við það sem augað getur eygt sem oft bæði skemmtir og getur orðið að gagni“, skrifaði Björn 1851. En hann varð að láta í minni pokann – í bili.

Hugmyndin um sameiningu fékk aftur meðbyr þegar til stóð að gera Akureyri öðru sinni að kaupstað en fyrir kröftug mótmæli Péturs Havstein amtmanns varð ekkert af því. Það var svo ekki fyrr en bæjarstjórn Akureyrar tók af skarið að eyrarnar voru sameinaðar, sem gerðist þó ekki fyrr en 1866.“

Mannvist hófst á Oddeyri árið 1858 þegar gullsmiðurinn Jósep Grímsson fluttist í torfkofa er stóð á horni Grænugötu og Norðurgötu sem nú er. Við segjum þó Gamla Lund fyrsta húsið er reis á Oddeyri og hingað til hefur ekki gefist ástæða til að draga það í efa. Gild rök hníga að því að húsið sé byggt 1857 en eigandinn, Lárus Hallgrímsson, lauk aldrei alveg við bygginguna enda gjaldþrota og vitstola. Var þá húsið selt á uppboði, þó ekki hæstbjóðanda heldur þeim er bauð lægst, hinum treysti sýslumaðurinn ekki til að standa við tilboð sín. Fáeinum árum síðar framdi þáverandi eigandi Lundar sjálfsmorð – þoldi víst ekki einveruna á eyrinni, að sögn – og var eftir það reimt í húsinu. Þarna byrjaði Gránufélagið kaupskap og þar bjó ungur að árum frægasti glímukappi Íslandssögunnar, Jóhannes Jósefsson síðar kenndur við Hótel Borg í Reykjavík. Eftir miðja 20. öld var smiðja Völundar Kristjánssonar járnsmiðs í húsinu og allt til þess er hann lést 1981. Árið eftir var Lundur friðaður og í framhaldinu keypti Akureyrarbær húsið en seldi aftur 1983 til Jóns Gíslasonar trésmiðs. Þegar Jón hugði betur að kom í ljós að varla var ein einasta fjöl nýtileg í Gamla Lundi og brá hann þá á það ráð að byggja húsið frá grunni af nýjum viðum en í líkingu hins gamla. Þegar blaðamaður spurði Jón í september 1985 hvað hann ætlaði sér með þá fullbyggt húsið svaraði hinn aldni smiður: „Það hefur verið stefna mín frá upphafi að hafa húsið undir myndlist“. Engar sögur fara af neinu óhreinu í hinum nýja Gamla Lundi.

Búseta á Oddeyri hófst 1858 í húsi sem hét Lundur (gamli Lundur). Í dag stendur svipað hús með sama nafni í Eiðsvallagötu 14. Íbúum eyrarinnar tók ekki að fjölga fyrr en eftir 1870 með tilkomu Gránufélagsins, sem var fyrsta íslenska verslunarfélagið á Akureyri. Um aldamótin 1900 voru götur Akureyrar alls 10, þar af fimm á Oddeyri. Strandgata og fjórar götur út frá henni, Glerárgata, Lundargata, Norðurgata og Grundargata.  


Picture of the sign

Oddeyrin - Oddeyri District

Oddeyri is Akureyri‘s second oldest district. The site was only used for parliamentary meetings from  early 14th century until 1551 when two warships arrived to quell a rising led by the Roman Catholic bishop, Jón Arason, of Hólar, who had, however, been executed the year before. No battle ensued, but his possessions were confiscated and given to the king and his heirs. In 1874 the 1000 year anniversary of the settlement of Iceland was celebrated on Oddeyri. Nothing was built there due to lack of drinking water and flooding risks from Glerá River. However, in 1866, the Danish authorities agreed to include Oddeyri in the township of Akureyri. The first house, Lundur, was built in 1858. A similar house of the same name stands at Eiðsvallagata 14. After 1870 building began in earnest with the establishment of Gránufélag, Akureyri‘s first commercial company. Around 1900 Akureyri had 10 streets 5 of which were on Oddeyri; Strandgata, Glerárgata, Lundargata, Norðurgata and Grundargata. 

Big photo: 
* Oddeyri around 1950. Strandgata has changed greatly over time. Originally it was close to the shoreline but landfills pushed the shore back to create an air strip, car wash facility and a small boat harbour where Hof Cultural Center now stands (inaugurated 2010). 

Smaller photos:
* Oddeyri 1931. The built-up area has expanded north from Strandgata. Gránufélagsgata forms a straight line the entire length of Oddeyri. The river flats by the Gránufélag buildings have shrunk.
* Oddeyri around 1890, showing the course of Glerá River. At that time, Strandgata was the main street and the Gránufélag buildings stood at its lower end. Furthest to the left are Oddeyri‘s oldest buildings, Gamli Lundur and the large stone-built house on Norðurgata.
* Oddeyri was ideal for social gatherings such as the 1000 year anniversary of the settlement of Helgi the Lean in 1890 and the centenary of Jón Sigurðsson in 1911. The photograph shows people celebrating the dawn of the 20th century.