Til baka

Gildagur í Listagilinu

Gildagur í Listagilinu

Líf og fjör í Listagilinu

Síðasti Gildagur ársins er laugardaginn 4. desember. Mikil tilhlökkun ríkir fyrir deginum og fjöldi skemmtilegra viðburða á boðstólnum. Í tilefni Gildagsins er stærstur hluti Kaupvangsstrætis lokaður fyrir bílaumferð milli kl. 14-17. Hægt verður þó að komast að bílastæðum efst og neðst í Listagilinu. Lokunina er hægt að sjá nánar á www.gildagur.is

 

Dagskrá Gildagsins 4. desember 2021

*birt með fyrirvara um breytingar

Garn í gangi
Jólagjafaaðstoð
Kl. 11.00 – 17.00
Viðburður á Facebook HÉR

Hvað langar heklaranum, prjónaranum eða útsaumaranum í jólagjöf? Við hjálpum til að finna skemmtilegar gjafir og ef þú vilt getum við pakkað henni inn líka. Notaleg stemming og við verðum búnar að skreyta.

Listasafnið á Akureyri
Þrjár nýjar sýningar opnaðar í Listasafninu
Kl. 12.00 – 17.00
Viðburðir á Facebook HÉR

Erling T. V. Klingenberg – punktur, punktur, punktur Erling T. V. Klingenberg birtist oft sjálfur í listsögulegum tilvísunum í eigin verkum. Tilvísunum sem notaðar eru til að ná fram hlutlægri framsetningu og huglægum ímyndum. Vinnuaðferðir hans sveiflast á milli þess óþægilega og þess einlæga. Ágengar tilfinningar eru einnig algengt viðfangsefni verka hans. Erling setur hugmyndina um listamanninn í óvænt og oft skoplegt samhengi, eins og endurspeglast í slagorðinu: „Það er erfitt að vera listamaður í líkama rokkstjörnu“ (“It´s hard to be an Artist in a Rock star’s body”). Þráhyggjukenndar tilraunir Erlings til að skilgreina hlutverk listamannsins í samfélagi „rokkstjörnunnar“ knýja hann til rannsókna á hvernig listamaðurinn gerir, en ekki hvað hann gerir. Það er því ferlið sem vekur áhuga hans, en ekki útkoman. Erling T. V. Klingenberg stundaði nám í myndlist á Íslandi, í Þýskalandi og Kanada. Hann hefur sýnt víða hérlendis og erlendis og er einn af stofnendum Kling & Bang í Reykjavík.

Karl Guðmundsson – Lífslínur Listferill Karls Guðmundssonar spannar nú rúmlega tvo áratugi. Hann hefur haldið einkasýningar frá 2000 og jafnframt tekið þátt í fjölda samsýninga. Karl hóf nám í Myndlistaskólanum á Akureyri fimm ára gamall undir handleiðslu Rósu Kristínar Júlíusdóttur og útskrifaðist af myndlistabraut Verkmenntaskólans á Akureyri 2007. Þau hafa unnið saman síðan. Í upphafi sem kennari og nemandi, en nú sem samstarfsfélagar í listinni. Verkin á sýningunni eru myndrænn afrakstur samtals þeirra og samleiks. Flest þeirra eru máluð á striga, gler og plexígler. Samstarfsfélagar á sýningunni eru myndlistarmennirnir Arna Valsdóttir og áðurnefnd Rósa Kristín Júlíusdóttir. Karl er mál- og hreyfihamlaður, en tekst engu að síður að koma skýrt til skila þeirri næmu, listrænu tilfinningu sem býr innra með honum. Hann var útnefndur listamaður Listar án landamæra 2015. Sýningarstjóri: Rósa Kristín Júlíusdóttir.

Yfirlitssýning – Gjöfin til íslenzkrar alþýðu Það þóttu stórtíðindi þegar athafnamaðurinn Ragnar Jónsson, kenndur við Smára, ákvað að færa Alþýðusambandi Íslands málverkasafnið sitt að gjöf sumarið 1961. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listaverkagjöf Ragnars – um 147 verk – lagði grunninn að Listasafni ASÍ og geymir verk margra af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar frá síðustu öld. Ragnar Jónsson byggði safn sitt í kring um fastan kjarna, stór og kynngimögnuð verk eftir fimm listmálara sem að hans mati voru þekktustu listamenn samtímans. Það voru þeir Ásgrímur Jónsson, Jóhannes S. Kjarval, Jón Stefánsson, Gunnlaugur Scheving og Þorvaldur Skúlason. Á sýningunni er lögð áhersla á verk þessara listamanna, leitast er við að fanga þá meginhugsun sem lá að baki söfnunarstefnu Ragnars og spegla sýn hans á íslenska listasögu. Sýningin er samstarfsverkefni Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ. Sýningarstjóri: Kristín G. Guðnadóttir, listfræðingur.

Fróði fornbókabúð
Listagildagur
Kl. 12.00 – 17.00
Viðburður á Facebook HÉR

Stórt safn bóka til sölu, þar á meðal: Jólabókum og jólakort Forn og sjaldgæfar bækur úr lager okkar Nýjar töfrabækur frá Black Letter Press Nýkomnar barnabækur Bók og póstkort eftir Listlandi Við erum einnig að sýna og selja listaverk og póstkort í takmörkuðu upplagi frá Ilze.

Ketilkaffi
Jólaglögg á happy hour allan daginn!
Kl. 12.00 – 22.00
Ketilkaffi á Facebook HÉR

Tilvalið að setjast niður í fallegu umhverfi og njóta veitinga í tilefni Gildagsins.

Sjoppan vöruhús
Sjoppugleði
Kl. 13.00 – 17.00
Viðburður á Facebook HÉR

Á fjórða og síðasta Gildegi ársins verður nóg um að vera í Sjoppunni. Helst ber að nefna kynningu á nýjum vörum frá LULU Copenhagen, Maps of Iceland og Ahne light. Boðið verður upp á smakk frá Lakrids by Bulow og The Mallows. Einnig verður hægt að gera góð kaup á völdum vörum í tilefni dagsins. Viðskiptavinir geta skráð sig í Gildagsleik Sjoppunnar. Dregið verður í lok dags og hljóta tveir heppnir bragðgóðan glaðning.

Mjólkurbúðin – salur Myndlistarfélagsins
Kyrrð
Kl. 14.00 – 17.00
Mjólkurbúðin á Facebook HÉR

Jónína Mjöll sýnir ný verk sem eru sérstaklega unnin fyrir rými Mjólkurbúðarinnar. Jónína leitar áhrifa í íslenska náttúru og eru verk sýningarinnar innblásin af henni. Jónína Mjöll hefur verið búsett í Þýskalandi síðastliðin 30 ár. Hún hefur starfað þar sem myndlistarmaður og myndmeðferðarfræðingur og útskrifaðist með meistaragráðu í myndlist frá University of the Arts í Bremen 2017. Jónína hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum í Berlín, Bremen, Bonn, Hamborg, Nagoya, Osterholz-Scharmbeck, Hanoi, Akureyri og Keflavík. Sýningin stendur til og með 12. desember og verður opin alla daga kl. 12-18.

Gilfélagið / Deiglan
Breiköpp
Kl. 15.00 – 17.00
Viðburður á Facebook HÉR

Myndbandsverkið Breiköpp eftir Sigbjørn Bratlie verður sýnt í Deiglunni laugardaginn 4. des og sunnudaginn 5. des kl. 15 – 17. Breiköpp HD video, 10 min. Myndbandið er byggt á klisjunni um „breiköpp senu“ eins og sést í hundruðum Hollywood kvikmynda. Hægt er að skilja hana bæði sem stuttmynd og sem myndbandsupptöku af listrænum gjörningi: Maður (listamaðurinn sjálfur) hefur ákveðið að hætta með kærustunni sinni og valdi sér sér huggulegan, rómantískan veitingastað til þess, í von um að hún verði ekki með vesen. En þar sem samtalið fer fram á íslensku, tungumáli sem maðurinn talar mjög illa, verður það að bardaga þar sem kærastan, sem talar móðurmálið, getur snúið upp á merkingu orðs eða orðasambands á sekúndubroti og í kjölfarið stýra samtalinu í þá átt sem hún vill. Um listamanninn: Ég er 48 ára, fæddur í Osló og útskrifaðist frá Central Saint Martins College of Art and Design í London árið 2002. Ég er búsettur í bæði Osló og Gdynia, á pólsku Eystrasaltsströndinni. Mínir miðlar eru myndbandsverk, innsetningar og málverk. Listaverkin mín hafa huglægan, greinandi og of húmorískan blæ. Síðustu níu ár hafa myndbandsverkin mín snúist um þemað tungumál, eða nánar tiltekið; erlend tungumál. Þessi myndbönd eru lokaútkoma gjörningaferlis þar sem ég eyði fyrst um það bil einu ári í að kenna sjálfum mér (misgagnleg) erlend tungumál og síðan bý ég til listverkefni þar sem ég á samskipti við einhvern á þessu tungumáli. Mörg þessara verkefna fjalla um aðstæður þar sem aðgangur að merkingu og gangkvæmum skilningi er hamlað með skorti á orðaforða, misskilning, slæmri málfræði eða framburði.

RÖSK RÝMI
Dansmálun
Kl. 14.00 – 17.00
Viðburður á Facebook HÉR

Dansmálun er sammálun á vinnustofu Listhópsins RÖSK. Þar er boðið upp á að taka sporið og dilla sér í takt við penslaförin. Engin aðgangseyrir - bara gríma og góð sveifla. Allir velkomnir!

 

_______________________________________________________

Gestir Gildaga eru hvattir til að deila skemmtilegum myndum með því að nota myllumerkið #gildagur og jafnvel líka #listagilid og #hallóakureyri

Hvenær
laugardagur, desember 4
Hvar
Listagilið / Art street
Verð
Enginn aðgangseyrir
Nánari upplýsingar