Til baka

Lítil saga úr orgelhúsi

Lítil saga úr orgelhúsi

Tónlistarævintýrið Lítil saga úr orgelhúsi í Akureyrarkirkju

Í apríl 2023 stendur Listvinafélag Akureyrarkirkju fyrir sýningum á Lítilli sögu úr orgelhúsi og býður öllum börnum í 1. og 2. bekk grunnskóla Akureyrar á sýninguna í Akureyrarkirkju.

Lítil saga úr orgelhúsi er fallegt ævintýri fyrir börn sem kynnir fyrir þeim pípuorgel á lifandi og skemmtilegan hátt. Söguhetjurnar eru persónur sem búa saman í húsi, orgelhúsi, og eru eins og venjulegt fólk þrátt fyrir að vera í raun orgelpípur. Hver hefur sinn karakter og hlutverk og það gengur á ýmsu í samskiptum hjá orgelpípunum. Aðal söguhetjan, Sif litla (í raun og veru orgelrödd sem ber heitið Sivflöjte 1), sem er minnsta röddin í orgelinu, er orðin mjög þreytt á þessu eilífa rifrildi og samkeppni í orgelhúsinu. Hún ákveður að fara í burtu og finna sér betri stað að búa á. Þá reynir nú heldur betur á hinar orgelpípurnar og þær fara að leita að Sif litlu því hún er í raun ómissandi. Allt fer sem betur fer vel að lokum og orgelpípurnar læra að búa í sátt og samlyndi.

Sagan er því ekki aðeins kynning á orgelinu, heldur fjallar hún líka um einelti og fyrirgefningu, samstöðu og vináttu.

Flytjendur á sýningunni eru tveir. Margrét Sverrisdóttir leikkona segir söguna og stýrir myndasýningu. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir flytur tónlistina á orgelið og túlkar persónurnar í tónum.

Verkið var samið árið 2015. Söguna gerði Guðný Einarsdóttir, tónlistina samdi Michael Jón Clarke og gefur hverri persónu karakter og hljóm á sinn einstaka hátt. Fanny Sizemore er höfundur litríku og glaðlegu myndanna sem sýndar eru.

Athugið að viðburðurinn er einungis fyrir boðsgesti úr grunnskólum Akureyrar.


Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar.
Skoðaðu viðburðadagatal hátíðarinnar HÉR

Hvenær
17. - 21. apríl
Klukkan
08:20-10:00
Hvar
Akureyrarkirkja, við Eyrarlandsveg, Akureyri
Verð
Lokaður viðburður