Til baka

Krossanesborgir

Krossanesborgir er friðlýstur fólkvangur frá árinu 2004.

Hér er fjölbreytt plöntu- og fuglalíf sem markmiðið er að varðveita, þannig að það verði til frambúðar fjölbreytt búsvæði fugla og plantna, sem almenningur hefur greiðan aðgang að til fræðslu og útivistar. Áhersla er lögð á að umgengni um svæðið skerði ekki plöntu- og fuglalíf þess.
Í borgunum er 5-10 milljóna ára basalt, sem myndar berggrunn Akureyrar. Svæðið er alsett klettaborgum eða stuttum klapparásum, í óreglulegum þyrpingum, er snúa norður-suður og eru almennt hvalbakslaga þ.e. aflíðandi að sunnan en með klettabelti að norðan og austan. Á borgunum má víða greina merki jökulskriðs þ.m.t. greinilegar jökulrákir, mánabrot og grettistök. Svæðið hefur lítið verið framræst. Á milli borganna eru því gróðursælar mýrar og tjarnir með sérstöku og fjölbreyttu plöntu- og fuglalífi. Helstu tjarnirnar eru Djáknatjörn, Startjörn og Hundatjörn. Um 170 plöntutegundir hafa fundist hér þ.a. 16 starategundir (votlendisplöntur) og einnig margar nykrutegundir m.a. hin sjaldgæfa langnykra. Samkvæmt ítarlegri fuglatalningu gerðri árið 2003 verpa hér amk 27 tegundir fugla. Meðal tegunda má m.a. telja: kríu; hettumáf, silfurmáf, sílamáf og stormmáf; jaðrakan; ýmsar endur og gæsir s.s. grafönd og grágæs, auk margvíslegra vað- og mófugla. Um svæðið liggja slóðar, sjá yfirlitskortið, sem lagðir hafa verið til að auðvelda gestum að njóta svæðisins. Nyrst er farið um gamla hestagötu sem er forn þjóðleið. Upplýsingaskilti með nánari upplýsingum eru á svæðinu og má finna þau hér neðan á síðunni.

Heimild: heimasíða Umhverfisstofnunar.

Aðgengi: Bílastæði er við Óðinsnes (aðeins fyrir neðan innkeyrsluna að Bykó).

Árið 2014 voru hönnuð upplýsingaskilti fyrir svæðið og má sjá þau hér fyrir neðan:
Kort af gönguleiðum
Yfirlitskort
Áveituskurður
Votlendisplöntur - blóm
Endur
Tré og runnar 
Mófuglar 
Jarðfræði 
Eyðibýlið Lónsgerði
Rjúpan 
Mávar 
Stríðsminjar 
Votlendisplöntur

 

Á Wikiloc og Google Earth

Nánari upplýsingar

Lengd: 4Km

Tími: 60min

Undirlag: Gönguslóði

Upphaf/Endir: Við Óðinsnes

Bílastæði: Við Óðinsnes

Áhugaverðir staðir: Fuglalíf, náttúra, klettaborgir