Til baka

Aðventuævintýri á Akureyri

Aðventuævintýri á Akureyri

Njótum töfra aðventunnar með óhefðbundnu sniði þetta árið.

Aðventuævintýri á Akureyri hefst á laugardegi fyrstu aðventuhelgina fyrir jól með því að ljósin eru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi en tréð er gjöf frá Randers vinabæ Akureyrar í Danmörku. Aðventuævintýri á Akureyri stendur fram að jólum og í eðlilegu árferði rekur hver viðburðurinn annan. Þetta árið verður minna um viðburði en engu að síður er aðventan yndislegur tími til að njóta með sínum nánustu.  

Njótum töfra aðventunnar með óhefðbundnu sniði þetta árið.  

Virðum gildandi takmarkanir og munum 2 metra fjarlægð! 

Það sem hafa þarf í huga yfir hátíðarnar vegna COVID-19

Njótum saman á aðventunni

Það er ýmislegt hægt að gera sér að dagamuni á aðventunni þó að viðburðir séu fáir. Hér eru nokkrar tillögur að afþreyingu fyrir fjölskylduna.

 • Gengið um bæinn. Það eru fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir á Akureyri. Hér má sjá fjölbreyttar hugmyndir af gönguferðum um bæinn. Þar sem farið er að rökkva snemma dags, getur verið tilvalið að hafa vasaljós með í gönguferðina.
 • Aðventuleikur í miðbænum. Miðbærinn skartar sínu fegursta á aðventunni og er þar ýmislegt að sjá. Fyrir börnin verður miðbæjarferðin enn skemmtilegri ef þau hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Hér er hægt að ná í skjal með skemmtilegum aðventuleik káta krakka og í raun alla fjölskylduna. Leikurinn snýst um að merkja við þá hluti sem eru á listanum. Þegar búið er að merkja við allt á listanum bjóða kaffihúsin Bláa Kannan, Penninn Café og Sykurverk upp á 2 fyrir 1 af kakó fyrir börn yngri en 12 ára í fylgd með fullorðnum gegn framvísun útfyllts leiks. Hægt er að búa til sína eigin keppni innan fjölskyldunnar eða hópsins. 
 • Skoðið jólaljósin og skreytingarnar. Hvar eru fallegustu jólaskreytingarnar? Hægt er að fara í bílferð eða gönguferð um bæinn til að skoða jólaskreytingarnar.
 • Lystigarðurinn er einstaklega rómantískur á þessum tíma árs. Garðurinn er upplýstur og luktir á rómantíska stígnum.
 • Leikum okkur í snjónum, búum til snjókarla og kerlingar eða snjóhús.
 • Sleðabrekkur. Vinsæla sleðabrekku má finna í Lundahverfi, hin svokallaða Jólasveinabrekka sem er upplýst á sama tíma og götulýsingarnar í bænum.  Auðveldast er að koma að brekkunni með því að aka inn Brálund, brekkan er við enda götunnar á vinstri hönd.
  Önnur vinsæl sleðabrekka er í Giljahverfi en best aðgengi er að henni frá Vættagili eða Valagili fyrir þá sem eru akandi en brekkan er staðsett við enda Vættagils. Brekkan er upplýst á sama tíma og götulýsingar í bænum. 
  Í Kjarnaskógi er einnig sleðabrekka.
 • Jólagarðurinn. Heimsókn í Jólagarðinn á aðventunni kemur öllum í jólaskapið. Aðeins um 10 mínútna akstur frá Akureyri. 
 • Kjarnaskógur. Frábærir leikvellir, völundarhús og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Í Kjarnaskógi eru einnig troðnar brautir fyrir gönguskíðaiðkun og sleðabrekkur. Hér ma finna nánari upplýsingar og kort af svæðinu. Nokkrir inngangar eru að svæðinu en auk þess að byrja ævintýrið við Kjarnaskóg er hægt að fara frá Ljómatúni í Naustahverfi í gegnum Naustaborgir, frá tjaldsvæðinu á Hömrum og frá bílaplaninu sunnan flugvallar. Hægt er að versla sér jólatré og efni í skreytingar.
 • Þekkir þú Útlagana, Sólúrið, Tilveru og þrumguðinn Þór? Ef ekki þá er tilvalið að nálgast bæklinginn „Útilistaverk á Akureyri“ á upplýsingamiðstöðinni í Hofi velja nokkur verk sem áhugavert væri að skoða og kynnast betur og einfaldlega ganga, hjóla eða keyra af stað.
  Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Útilistaverk á Akureyri
  Hægt er að nálgast bæklinginn í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi.
 • Krossanesborgir. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og 10 fræðsluskilti sem gaman væri að lesa á – líklegast gott að hafa með vasaljós (til að sjá ef myrkur er)
 • Folf (frisbígolf). Það er tilvalið að skella sér í folf ef aðstæður leyfa en hægt er að fara hring á Hamarkotstúninu, Eiðsvelli, við Glerárskóla, við Háskólann og á Hömrum (við tjaldsvæðið). Nánari upplýsingar má finna hér.
 • Lesið á ljósastaura. Hægt að fylgja járnbókunum sem festar eru á ljósastaura frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi í Innbænum eða öfugt. Hér getur öll fjölskyldan sameinast í lestri (kannski með vasaljósi) og endað á bókasafninu með góðar hugmyndir að skemmtilegu lestrarefni. 
 • Innbærinn í nýju ljósi. Tilvalið er að ganga um Innnbæinn með bæklinginn  „Frá torgi til fjöru“ í hönd til að kynnast sögu bæjarins. Þegar komið er inní Innbæ eru söguskilti sem gaman er að lesa á og skoða myndirnar til að setja söguna í enn betra samhengi. Söguskiltin eru frá Eimskipabryggjunni inn að Ráðhústorgi og síðan áfram þaðan inn í innbæinn. Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Frá torgi til fjöru
 • Fræðist um sögu Akureyrar. Víðsvegar um eldri hluta bæjarins eru skilti sem segja sögu hvers staðar fyrir sig. Skiltin gera grein fyrir sögu húsa og staðhátta í máli og myndum, alla leið frá Strandgötu inn í Innbæinn. Sjá nánar um skiltin hér
 • Upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna má finna hér og kynnið ykkur viðburðadagatalið hér
 • Opið er í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi frá kl. 08.15 til 16.00 alla virka daga þar sem hægt er að leita ráða

Viðburðadagatal aðventuævintýris

Fimmtudagur 3. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 20:00 Í HOFI & Heim - Magni Ásgeirsson & Stefán Elí - Tónleikar í Hofi og streymi á mak.is
Laugardagur 5. desember
Kl. 12:00-16:00 Opnun á 3 nýjum sýningum í Listasafninu
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Fimmtudagur 10. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 20:00 Í HOFI & Heim - Þórhildur Örvarsdóttir & Alexander Edelstein - Tónleikar í Hofi og streymi á  mak.is
Laugardagur 12. desember
Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Sunnudagur 13. desember
Kl. 11:00 Barnamorgunn – Syngjum saman með Ívari Helga í Hofi
Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Miðvikudagur 16. desember
Kl. 20:00 Hinn bjarti Beethoven – klassískir tónleikar með Ásdísi Arnardóttur í Hofi
Fimmtudagur 17. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Föstudagur 20. desember
Kertakvöld í miðbænum – opið í verslunum til kl. 22:00
Laugardagur 19. desember
Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 16:00 Opnun á sýningu Freyju Reynisdóttur Sannleiks-breytur í Hofi
Sunnudagur 20. Desember
Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk

Gaman að fylgjast með á aðventunni:

Minjasafnið á Facebook birtir áhugaverðan fróðleik á hverjum degi til jóla í jóladagatalinu sínu.

Hymnodia á Facebook birtir lag á hverjum degi til jóla.

Hvenær
3. - 23. desember
Klukkan
Hvar
Akureyri
Nánari upplýsingar

Sjá nánar hér