Til baka

Aðventuævintýri á Akureyri

Aðventuævintýri á Akureyri

Njótum töfra aðventunnar með óhefðbundnu sniði þetta árið.

Aðventuævintýri á Akureyri hefst á laugardegi fyrstu aðventuhelgina fyrir jól með því að ljósin eru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi en tréð er gjöf frá Randers vinabæ Akureyrar í Danmörku. Aðventuævintýri á Akureyri stendur fram að jólum og í eðlilegu árferði rekur hver viðburðurinn annan. Þetta árið verður minna um viðburði en engu að síður er aðventan yndislegur tími til að njóta með sínum nánustu.  

Njótum töfra aðventunnar með óhefðbundnu sniði þetta árið.  

Virðum  gildandi takmarkanir og munum 2 metra fjarlægð! 

Það sem hafa þarf í huga yfir hátíðarnar vegna COVID-19

Njótum saman á aðventunni

Það er ýmislegt hægt að gera sér að dagamuni á aðventunni þó að viðburðir séu fáir. Hér eru nokkrar tillögur að afþreyingu fyrir fjölskylduna.

  • Gengið um bæinn. Það eru fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir á Akureyri. Hér má sjá fjölbreyttar hugmyndir af gönguferðum um bæinn. Þar sem farið er að rökkva snemma dags, getur verið tilvalið að hafa vasaljós með í gönguferðina.
  • Aðventuleikur í miðbænum. Miðbærinn skartar sínu fegursta á aðventunni og er þar ýmislegt að sjá. Fyrir börnin verður miðbæjarferðin enn skemmtilegri ef þau hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Aðventuleikur í miðbænum hentar fjölskyldum með ung börn, frekar léttur leikur sem snýst um að finna hluti í miðbænum sem eru á blaðinu og krossa við. Þegar búið er að leysa leikinn bjóða þrjú kaffihús í miðbænum, Bláa Kannan, Penninn Café og Sykurverk upp á 2 fyrir einn af kakó fyrir börn yngri en 12 ára sem taka þátt í leiknum með fjölskyldu sinni. Þið prentið út skjalið sem hér má finna og framvísið til að geta fengið tilboðið.  Það er einnig hægt að nota leikinn til búa til sína eigin keppni innan fjölskyldunnar eða hópsins og er þá tilvalið að taka myndir af hlutunum. 
  • Leitum listina uppi. Fáðu fjölskylduna eða vinina með í ratleik á milli valdra útilistaverka bæjarins. Byrjað er við Hof og liggur leiðin upp á  brekkuna, framhjá Akureyrarkirkju, Menntaskólanum á Akureyri og að sundlauginni. Þaðan aftur niður í bæ og líkur á sama stað og byrjað var á, við Hof. Finnið leikinn hér. Ratleikurinn var undirbúinn af starfsfólki Listasafnsins á Akureyri. 
  • Aðventuratleikur Amtsbókasafnsins. Leikurinn hefst við einn af gluggum Orðakaffis og teygir sig svo um bæinn. Við mælum með að þátttakendur taki með sér vasaljós í skammdeginu þó það sé ekki nauðsynlegt. Til að taka þátt í leiknum þarf að hlaða niður smáforritinu (app) goosechase.com. Það er ókeypis. Síðan er nafn leiksins sett í leitarstikuna „Aðventuratleikur Amtsbókasafnsins" og þá birtast þrautirnar í þeirri röð sem best er að leysa þær. Ratleikurinn hefst við Amtsbókasafnið á Akureyri. Fyrsta verkefni ratleiksins er að finna í einum af gluggum Orðakaffis. Þaðan heldur leikurinn áfram um miðbæ Akureyrar, upp kirkjutröppurnar, upp í Lystigarð, að Davíðshúsi með viðkomu hjá Andapollinum og síðan endar leikurinn við Amtsbókasafnið. Áætlað er að leikurinn taki um það bil eina klukkustund og að hann henti vel fjölskyldum (börnum með leiðsögn fullorðinna). Verkefnin má í raun leysa í hvaða röð sem er en það hentar sennilega best að leysa þau í þeirri röð sem nefnd er að ofan. Verkefnin eru fjölbreytt. Þátttakendur fá það verkefni að leysa myndagátu, svara spurningum og taka myndir af sér við ýmis kennileiti bæjarins.
  • Skoðið jólaljósin og skreytingarnar. Hvar eru fallegustu jólaskreytingarnar? Hægt er að fara í bílferð eða gönguferð um bæinn til að skoða jólaskreytingarnar. Það getur verið áhugavert að skoða skreytingar í miðbænum og kíkja á Jólaköttinn á Ráðhústorgi eða Stekkjastaur á svölum Listasafnsins.
  • Lystigarðurinn er einstaklega rómantískur á þessum tíma árs. Garðurinn er upplýstur og luktir á rómantíska stígnum.
  • Leikum okkur í snjónum, búum til snjókarla og kerlingar eða snjóhús.
  • Sleðabrekkur. Vinsæla sleðabrekku má finna í Lundahverfi, hin svokallaða Jólasveinabrekka sem er upplýst á sama tíma og götulýsingarnar í bænum.  Auðveldast er að koma að brekkunni með því að aka inn Brálund, brekkan er við enda götunnar á vinstri hönd.
    Önnur vinsæl sleðabrekka er í Giljahverfi en best aðgengi er að henni frá Vættagili eða Valagili fyrir þá sem eru akandi en brekkan er staðsett við enda Vættagils. Brekkan er upplýst á sama tíma og götulýsingar í bænum. 
    Í Kjarnaskógi er einnig sleðabrekka.
  • Jólagarðurinn. Heimsókn í Jólagarðinn á aðventunni kemur öllum í jólaskapið. Aðeins um 10 mínútna akstur frá Akureyri. 
  • Kjarnaskógur. Frábærir leikvellir, völundarhús og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Í Kjarnaskógi eru einnig troðnar brautir fyrir gönguskíðaiðkun og sleðabrekkur. Hér ma finna nánari upplýsingar og kort af svæðinu. Nokkrir inngangar eru að svæðinu en auk þess að byrja ævintýrið við Kjarnaskóg er hægt að fara frá Ljómatúni í Naustahverfi í gegnum Naustaborgir, frá tjaldsvæðinu á Hömrum og frá bílaplaninu sunnan flugvallar. Hægt er að versla sér jólatré og efni í skreytingar.
  • Þekkir þú Útlagana, Sólúrið, Tilveru og þrumguðinn Þór? Ef ekki þá er tilvalið að nálgast bæklinginn „Útilistaverk á Akureyri“ á upplýsingamiðstöðinni í Hofi velja nokkur verk sem áhugavert væri að skoða og kynnast betur og einfaldlega ganga, hjóla eða keyra af stað.
    Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Útilistaverk á Akureyri
    Hægt er að nálgast bæklinginn í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi.
  • Krossanesborgir. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og 10 fræðsluskilti sem gaman væri að lesa á – líklegast gott að hafa með vasaljós (til að sjá ef myrkur er)
  • Folf (frisbígolf). Það er tilvalið að skella sér í folf ef aðstæður leyfa en hægt er að fara hring á Hamarkotstúninu, Eiðsvelli, við Glerárskóla, við Háskólann og á Hömrum (við tjaldsvæðið). Nánari upplýsingar má finna hér.
  • Lesið á ljósastaura. Hægt að fylgja járnbókunum sem festar eru á ljósastaura frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi í Innbænum eða öfugt. Hér getur öll fjölskyldan sameinast í lestri (kannski með vasaljósi) og endað á bókasafninu með góðar hugmyndir að skemmtilegu lestrarefni. 
  • Innbærinn í nýju ljósi. Tilvalið er að ganga um Innnbæinn með bæklinginn  „Frá torgi til fjöru“ í hönd til að kynnast sögu bæjarins. Þegar komið er inní Innbæ eru söguskilti sem gaman er að lesa á og skoða myndirnar til að setja söguna í enn betra samhengi. Söguskiltin eru frá Eimskipabryggjunni inn að Ráðhústorgi og síðan áfram þaðan inn í innbæinn. Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Frá torgi til fjöru
  • Fræðist um sögu Akureyrar. Víðsvegar um eldri hluta bæjarins eru skilti sem segja sögu hvers staðar fyrir sig. Skiltin gera grein fyrir sögu húsa og staðhátta í máli og myndum, alla leið frá Strandgötu inn í Innbæinn. Sjá nánar um skiltin hér
  • Skoðaðu söfn og sýningar. Hér má sjá upplýsingar um yfirstandandi sýningar. 
  • Skelltu þér í sund.Hér má sjá opnunartíma sundlauganna.
  • Upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna má finna hér og kynnið ykkur viðburðadagatalið hér
  • Opið er í Upplýsingamiðstöðinni í Hofi frá kl. 08.15 til 16.00 alla virka daga fram að jólum þar sem hægt er að leita ráða. 
  • Upplýsingar um opnunartíma og afþreyingu yfir jól og áramót má finna hér.

 

Viðburðadagatal aðventuævintýris

Fimmtudagur 3. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 20:00 Í HOFI & Heim - Magni Ásgeirsson & Stefán Elí - Tónleikar í Hofi og streymi á mak.is
Laugardagur 5. desember
Kl. 12:00-16:00 Opnun á 3 nýjum sýningum í Listasafninu
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 14:00 Núna Núna og Núna. Málverkasýning Úlfs Karlssonar í Kaktus
Fimmtudagur 10. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 12:00-12:30 Leiðsögn um sýningar Listasafnsins
Kl. 20:00 Í HOFI & Heim - Þórhildur Örvarsdóttir & Alexander Edelstein - Tónleikar í Hofi og streymi á  mak.is
Laugardagur 12. desember
Kl. 10:00-16:00 Jólamarkaður í Skógarlundi 1, miðstöð virkni og hæfni
Kl. 11:00-15:00 Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 13:00-17:00 Myndlistarsýning Hallgríms Ingólfssonar í Deiglunni
Sunnudagur 13. desember
Kl. 11:00-15:00 Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Kl. 13:00-17:00 Myndlistarsýning Hallgríms Ingólfssonar í Deiglunni
Mánudagur 14. desember
Kl. 17:00-19:00 Opin kirkja á aðventu í Akureyrarkirkju
Þriðjudagur 15. desember
Kl. 17:00-19:00 Opin kirkja á aðventu í Akureyrarkirkju
Miðvikudagur 16. desember
Kl. 17:00-19:00 Opin kirkja á aðventu í Akureyrarkirkju
Kl. 20:00 Hinn bjarti Beethoven – klassískir tónleikar með Ásdísi Arnardóttur í Hofi
Fimmtudagur 17. desember
Kl. 12:00-18:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 12:00-12:30 Leiðsögn um sýningar Listasafnsins
Kl. 17:00-19:00 Opin kirkja á aðventu í Akureyrarkirkju
Föstudagur 18. desember
Kl. 17:00-19:00 Opin kirkja á aðventu í Akureyrarkirkju
Kl. 17:00 Opnun á málverkasýningu Helgu Sigríðar í Auglit, Skipagötu 5
Kl. 18:00 Kvenna Jólaráð - Sigrún Magna og Steinunn Arnbjörg leika á orgel og selló í Akureyrarkirkju
Kertakvöld í miðbænum – opið í verslunum til kl. 22:00
Laugardagur 19. desember
Kl. 11:00-15:00 Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk
Kl. 13:00-16:00 Opin vinnustofa listakonunnar Jónínu Bjargar í Hafnarstræti 90
Kl. 15:00-16:00 Hugarró - Margrét Árnadóttir flytur hugljúfa tónlist í Pakkhúsinu, Strandgötu 43
Opnun á sýningu Freyju Reynisdóttur Sannleiks-breytur í Hofi
Sunnudagur 20. Desember
Kl. 11:00-15:00 Höggvið eigið jólatré í Laugalandsskógi á Þelamörk

Gaman að fylgjast með á aðventunni:

Minjasafnið á Facebook birtir áhugaverðan fróðleik á hverjum degi til jóla í jóladagatalinu sínu.

Hymnodia á Facebook birtir lag á hverjum degi til jóla.

Desembersýning í Mjólkurbúðinni er gluggasýning. Verkin eru til sölu og eru upplýsingar um verkin og listamennina að finna á Facebook síðu sýningarinnar.

Hvenær
27. nóvember - 23. desember
Hvar
Akureyri
Nánari upplýsingar

Sjá nánar hér