Til baka

Aðventan á Akureyri (desember)

Njótum töfra aðventunnar  

Aðventuævintýri á Akureyri hefst með því að ljósin eru tendruð á jólatrénu á Ráðhústorgi. Aðventuævintýri á Akureyri stendur fram að jólum með fjölda viðburða, tónleika, sýninga, markaða o.fl. o.fl. og má skoða dagskránna hér. Njótum árstíðarinnar, aðventan er yndislegur tími til að njóta með vinum, vinnufélögum og sínum nánustu.  

MATUR OG DRYKKUR 
Ef einhvern tímann er ástæða til að gera vel við sig í mat og drykk þá er það á aðventunni. Á Akureyri eru fjölmargir ómótstæðilegir veitingastaðir sem bjóða upp jólastemningu og matseðla sem kitla bragðlaukana. Það er líka upplagt að leggja leið sína á eitthvert af fjölmörgum kaffihúsum bæjarins til að hvíla sig við jólagjafainnkaupin og þeir sem vilja kíkja á skyndibitastað hafa úr nægu að velja. Fyrir þá sem vilja frekar njóta veitinganna heima, þá eru fjöldi veitingastaða sem býður upp á að taka með.


GISTING
Gistimöguleikarnir á Akureyri eru fjölmargir – viltu gista á hóteli eða í hótelíbúð, á gistiheimili eða í íbúðagistingu eða jafnvel í sumarhúsi? Skoðaðu yfirlit yfir gistimöguleika á visitakureyri.is undir flipanum gisting.

VERSLUN
 Það er upplagt að gera jólaverslunina á Akureyri í rólegu og huggulegu umhverfi, þar sem boðið er upp á vandað og fjölbreytt vöruúrval og verslunar- og þjónustuaðilar leggja áherslu á að veita góða og persónulega þjónustu. Þegar nær dregur verður hægt að skoða hér lista yfir opnunartíma verslana í desember. Hér getur þú skoðað heimasíðu verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs og Miðbæjarsamtökin á Akureyri halda úti Facebooksíðu.

 

Njótum saman á aðventunni
Það er ýmislegt hægt að gera sér að dagamuni á aðventunni þó að viðburðir séu fáir. Hér eru nokkrar tillögur að afþreyingu fyrir fjölskylduna.

 • Það er hægt að gera sér ýmislegt til skemmtunar á aðventunni. Á viðburðadagatalinu má skoða alla þá fjölbreyttu viðburði sem eru í boði, sjá hér.
  Hér fyrir neðan eru síðan nokkrar tillögur að afþreyingu sem hver og einn getur tekið þátt í þegar þeim hentar með sínum vinum og fjölskyldu.

  • Gengið um bæinn. Það eru fjölmargar áhugaverðar gönguleiðir á Akureyri. Hér má sjá fjölbreyttar hugmyndir af gönguferðum um bæinn. Þar sem farið er að rökkva snemma dags, getur verið tilvalið að hafa ljós með í gönguferðina.
  • Aðventuleikur í miðbænum. Miðbærinn skartar sínu fegursta á aðventunni og er þar ýmislegt að sjá. Fyrir börnin verður miðbæjarferðin enn skemmtilegri ef þau hafa eitthvað áhugavert fyrir stafni. Aðventuleikur í miðbænum hentar fjölskyldum með ung börn, frekar léttur leikur sem snýst um að finna hluti í miðbænum sem eru á blaðinu og krossa við. Þegar búið er að leysa leikinn bjóða þrjú kaffihús í miðbænum, Bláa Kannan, Penninn Café og Sykurverk upp á 2 fyrir einn af kakó fyrir börn yngri en 12 ára sem taka þátt í leiknum með fjölskyldu sinni. Þið prentið út skjalið sem hér má finna og framvísið til að geta fengið tilboðið. Það er einnig hægt að búa til sína eigin keppni innan fjölskyldunnar eða hópsins og er þá tilvalið að taka myndir af hlutunum.
  • Leitum listina uppi. Fáðu fjölskylduna eða vinina með í ratleik á milli valdra útilistaverka bæjarins. Byrjað er við Hof og liggur leiðin upp á brekkuna, framhjá Akureyrarkirkju, Menntaskólanum á Akureyri og að sundlauginni. Þaðan aftur niður í bæ og líkur á sama stað og byrjað var á, við Hof. Finnið leikinn hér. Ratleikurinn var undirbúinn af starfsfólki Listasafnsins á Akureyri.
  • Skoðið jólaljósin og skreytingarnar. Hvar eru fallegustu jólaskreytingarnar? Hægt er að fara í bílferð eða gönguferð um bæinn til að skoða jólaskreytingarnar. Það getur verið áhugavert að skoða skreytingar í miðbænum og kíkja á Jólaköttinn á Ráðhústorgi.
  • Lystigarðurinn er einstaklega rómantískur á þessum tíma árs, seríur lýsa upp garðinn og stíga.
  • Leikum okkur í snjónum, búum til snjókarla og kerlingar eða snjóhús.
  • Sleðabrekkur. Vinsæla sleðabrekku má finna í Lundahverfi, hin svokallaða Jólasveinabrekka sem er upplýst á sama tíma og götulýsingarnar í bænum. Auðveldast er að koma að brekkunni með því að aka inn Brálund, brekkan er við enda götunnar á vinstri hönd.
   Önnur vinsæl sleðabrekka er í Giljahverfi en best aðgengi er að henni frá Vættagili eða Valagili fyrir þá sem eru akandi en brekkan er staðsett við enda Vættagils. Brekkan er upplýst á sama tíma og götulýsingar í bænum. Í Kjarnaskógi er einnig sleðabrekka.
  • Jólagarðurinn. Heimsókn í Jólagarðinn á aðventunni kemur öllum í jólaskapið. Aðeins um 10 mínútna akstur frá Akureyri. Opið alla daga fram að jólum frá 12-18.
  • Kjarnaskógur. Frábærir leikvellir, völundarhús og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Þegar nægur snjór er, er einnig boðið upp á troðnar brautir fyrir gönguskíðaiðkun og sleðabrekkur. Hér ma finna nánari upplýsingar og kort af svæðinu. Nokkrir inngangar eru að svæðinu en fyrir utan að byrja ævintýrið í Kjarnaskógi, er hægt að fara frá Ljómatúni í Naustahverfi í gegnum Naustaborgir, frá tjaldsvæðinu á Hömrum og frá bílaplaninu sunnan flugvallar. Hægt er að versla sér jólatré og efni í skreytingar í Kjarnaskógi.
  • Þekkir þú Útlagana, Sólúrið, Tilveru og þrumguðinn Þór? Ef ekki þá er tilvalið að nálgast bæklinginn „Útilistaverk á Akureyri“ velja nokkur verk sem áhugavert væri að skoða og kynnast betur og einfaldlega ganga, hjóla eða keyra af stað. Útilistaverk á Akureyri.
  • Krossanesborgir. Þar eru skemmtilegar gönguleiðir og 10 fræðsluskilti sem gaman væri að lesa á – líklegast gott að hafa með vasaljós og góða skó því gönguleiðirnar í Krossanesborgum eru ekki hreinsaðar og engin lýsing meðfram göngustígunum.
  • Folf (frisbígolf). Það er tilvalið að skella sér í folf ef aðstæður leyfa en hægt er að fara hring á Hamarkotstúninu, Eiðsvelli, við Glerárskóla, við Háskólann og á Hömrum (við tjaldsvæðið). Nánari upplýsingar má finna hér.
  • Lesið á ljósastaura. Hægt að fylgja járnbókunum sem festar eru á ljósastaura frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi í Innbænum eða öfugt. Hér getur öll fjölskyldan sameinast í lestri (kannski með vasaljósi) og endað á bókasafninu með góðar hugmyndir að skemmtilegu lestrarefni.
  • Innbærinn í nýju ljósi. Tilvalið er að ganga um Innnbæinn með bæklinginn „Frá torgi til fjöru“ í hönd til að kynnast sögu bæjarins. Þegar komið er inní Innbæ eru söguskilti sem gaman er að lesa á og skoða myndirnar til að setja söguna í enn betra samhengi. Söguskiltin eru frá Eimskipabryggjunni inn að Ráðhústorgi og síðan áfram þaðan inn í innbæinn. Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Frá torgi til fjöru
  • Fræðist um sögu Akureyrar. Víðsvegar um eldri hluta bæjarins eru skilti sem segja sögu hvers staðar fyrir sig. Skiltin gera grein fyrir sögu húsa og staðhátta í máli og myndum, alla leið frá Strandgötu inn í Innbæinn. Sjá nánar um skiltin hér
  • Skoðaðu söfn og sýningar. Hér má sjá upplýsingar um yfirstandandi sýningar.
  • Skelltu þér í sund. Hér má sjá opnunartíma sundlauganna.
  • Upplýsingar um fjölbreytta afþreyingu fyrir alla fjölskylduna má finna hér og kynnið ykkur viðburðadagatalið hér
  • Vantar þig/ykkur kort eða bæklinga af bænum þá má nálgast það á Amtsbókasafninu, Sundlaug Akureyrar eða á Listasafninu á Akureyri
  • Upplýsingar um opnunartíma og afþreyingu yfir jól og áramót má finna hér.

  Viðburðadagatal aðventuævintýris 2022
  Hér má skoða alla viðburði sem skráðir eru á viðburðadagatal bæjarins.