Á Akureyri er að finna fjölda leiksvæða, leikvalla og sparkvalla. Sundlaug Akureyrar, Andapollurinn og Lystigarðurinn eru vinsælir viðkomustaðir. Kjarnaskógur, helsta útivistarsvæði bæjarins, býður upp á spennandi möguleika, leiktæki og stíga. Hægt er að fara í hvalaskoðun eða heimsækja gamla eikarbátinn Húna II.
Glæsilega hjólabretta- og línuskautaaðstöðu er að finna á útivistarsvæðinu sunnan við Háskólann á Akureyri við Norðurslóð.
Á sumrin er boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn og má sjá yfirlit yfir þau flest á heimasíðu Rósenborgar. Námskeiðin eru opin öllum börnum frá 6 ára og eldri. Í sum námskeiðin er hægt að skrá sig í allt frá hluta úr degi og upp í 2 vikur. Einnig býður Listasumar upp á fjölbreytta og skemmtilegar listasmiðjur og viðburði fyrir börn á öllum aldri sem sjá má á viðburðadagatali Listasumars.
Amtsbókasafnið, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús og Leikfangahúsið eru meðal safna á Akureyri sem eru forvitnileg fyrir börn. Auk þess sem gaman er fyrir börn að fara í bíó og leikhús.
Á veturna er m.a. tilvalið að njóta útivistar í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi, skella sér á skauta í Skautahöllinni eða á sleða t.d. í jólasveinabrekkunni.
Hér eru nokkrar hugmyndir af afþreyingu á Akureyri fyrir fjölskylduna:
Það má klappa öllum dýrum sem vilja láta klappa sér, fara inn í gerðið hjá geitunum seem og kattaheimilið og knúsa kisur og kettlinga þegar þeir eru nógu stórir til að láta halda á sér.
Leiksvæði fyrir börnin er bæði innan og utandyra. Hlaða til að hoppa í heyið og úti eru trampólín og fleira. Í daladýrð er kaffihús og verslun sem selur íslenskt handverk sem allt tengist sveitinni á einhvern hátt.
Opið er alla daga frá kl.11-18