Til baka

Börn og afþreying ELDRA

Á Akureyri er að finna fjölda leiksvæða, leikvalla og sparkvalla. Sundlaug Akureyrar, Andapollurinn og Lystigarðurinn eru vinsælir viðkomustaðir. Kjarnaskógur, helsta útivistarsvæði bæjarins, býður upp á spennandi möguleika, leiktæki og stíga. Hægt er að fara í hvalaskoðun eða heimsækja gamla eikarbátinn Húna II.

Glæsilega hjólabretta- og línuskautaaðstöðu er að finna á útivistarsvæðinu sunnan við Háskólann á Akureyri við Norðurslóð. 

Á sumrin er boðið upp á fjölbreytt námskeið fyrir börn og má sjá yfirlit yfir þau flest á heimasíðu Rósenborgar. Námskeiðin eru opin öllum börnum frá 6 ára og eldri. Í sum námskeiðin er hægt að skrá sig í allt frá hluta úr degi og upp í 2 vikur. Einnig býður Listasumar upp á fjölbreytta og skemmtilegar listasmiðjur og viðburði fyrir börn á öllum aldri sem sjá má á viðburðadagatali Listasumars.

Amtsbókasafnið, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús og Leikfangahúsið eru meðal safna á Akureyri sem eru forvitnileg fyrir börn. Auk þess sem gaman er fyrir börn að fara í bíó og leikhús.

Á veturna er m.a. tilvalið að njóta útivistar í Hlíðarfjalli og Kjarnaskógi, skella sér á skauta í Skautahöllinni eða á sleða t.d. í jólasveinabrekkunni.

 

 Hér eru nokkrar hugmyndir af afþreyingu á Akureyri fyrir fjölskylduna:

  • Lesið á ljósastaura. Hægt að fylgja járnbókunum sem festar eru á ljósastaura frá Amtsbókasafninu að Nonnahúsi í Innbænum eða öfugt. Hér getur öll fjölskyldan sameinast í lestri (kannski með vasaljósi) og endað á bókasafninu með góðar hugmyndir að skemmtilegu lestrarefni. 

  • Innbærinn í nýju ljósi. Tilvalið er að ganga um Innnbæinn með bæklinginn  „Frá torgi til fjöru“ í hönd til að kynnast sögu bæjarins. Þegar komið er inní Innbæ eru söguskilti sem gaman er að lesa á og skoða myndirnar til að setja söguna í enn betra samhengi. 
    Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Frá torgi til fjöru

  • Fræðist um sögu Akureyrar. Víðsvegar um eldri hluta bæjarins eru skilti sem segja sögu hvers staðar fyrir sig. Skiltin gera grein fyrir sögu húsa og staðhátta í máli og myndum, alla leið frá Strandgötu inn í Innbæinn. Sjá nánar um skiltin hér

  • Þekkir þú Útlagana, Sólúrið, Tilveru og þrumguðinn Þór? Ef ekki þá er tilvalið að nálgast bæklinginn „Útilistaverk á Akureyri“ á upplýsingamiðstöðinni í Hofi velja nokkur verk sem áhugavert væri að skoða og kynnast betur og einfaldlega ganga, hjóla eða keyra af stað.
     Það má líka undirbúa sig heima með því að lesa þetta: Útilistaverk á Akureyri
     Hægt er að nálgast bæklinginn á upplýsingamiðstöðinni í Hofi.

  • Kjarnaskógur. Frábær leikvöllur og skemmtilegar gönguleiðir um skóginn. Einnig er gaman að prófa nýja klifurkastalann en auk þess er nýlega búið að setja upp hjólastólarólu á leiksvæðinu.

  • Ferja, folf og sund í Hrísey. Tilvalið að taka ferjuna í Hrísey, taka með sér frísbídiska (ef veður leyfir) og sundföt. Folfið er staðsett við Gamla skóla og það er skilti við höfnina og eins á staðnum. Eftir útiveru og sundferð er svo tilvalið að skella sér á veitingastaðinn Verbúðin 66 og fá sér hressingu.  Frekari upplýsingar má finna á www.hrisey.is

  • Jólagarðurinn. Andi jólanna ríkir í Jólagarðinum árið um kring. Garðurinn, turninn og litla húsið skapa skemmtilega umgjörð um verslun með vörur sem tengjast jólunum. Jólagarðurinn er vinsæll áningarstaður ferðamanna sem koma í Eyjafjarðarsveit og á Akureyri. Frekari upplýsingar má finna hér

  • Húsdýragarðurinn Daladýrð. Daladýrð er í tæplega 20 mín fjarlægð frá Akureyri. Staðsettur í Brúnagerði í Fnjóskada. Þarna gefur að líta öll helstu húsdýrin eins og hesta, kindur, kýr, hund, geitur, grísi, ýmsar tegundir af hænum, kanínur og kisur. Einnig eru þar refir á sumrin.

    Það má klappa öllum dýrum sem vilja láta klappa sér, fara inn í gerðið hjá geitunum seem og kattaheimilið og knúsa kisur og kettlinga þegar þeir eru nógu stórir til að láta halda á sér.

    Leiksvæði fyrir börnin er bæði innan og utandyra. Hlaða til að hoppa í heyið og úti eru trampólín og fleira. Í daladýrð er kaffihús og verslun sem selur íslenskt handverk sem allt tengist sveitinni á einhvern hátt.

    Opið er alla daga frá kl.11-18

  • Hestaafþreying. Kynna má sér hestaferðir á Norðurlandi hér
  • Skelltu þér í sund.  Hér má sjá opnunartíma sundlauganna.

  • Skautahöllin.  Yfir vetrartímann er opið fyrir almenning föstudag kl 13-16 og skautadiskó á föstudagskvöldi frá kl.19-21. Laugardag og sunnudag kl 13-16. Aðgangseyrir er 900 fyrir fullorðna og 600 fyrir börn og skautaleigan 500 kr en gjaldskránna má finna á www.sasport.is

  • Krossanesborgir. Þar eru 10 fræðsluskilti sem gaman væri að lesa á – líklegast gott að hafa með vasaljós (til að sjá ef myrkur er)

  • Innanhússgolf. Í einni bestu aðstöðu innanhúss á landinu í kjallaranum í Íþróttahöllinni. Opnunartími í haustfríinu er 9.00-20.00 virka daga og 10.00-17.00 um helgar. Verð er 1000 kr. Einnig eru tveir golfhermar af fullkomnustu gerð sem hægt er að spila í. Verð er frá 2800-3200 kr klst. Nánari upplýsingar á www.gagolf.is

  • Folf (frisbígolf). Það er tilvalið að skella sér í folf með fjölskyldunni en bæði er hægt að fara hring á Hamarkotstúninu, Eiðsvelli, við Glerárskóla og á Hömrum (við tjaldsvæðið)

  • Braggaparkið. Braggaparkið er innanhús aðstaða í bröggunum við Laufásgötu 1 fyrir hjólabretti, hlaupahjól, línuskauta og BMX. Opið er alla daga frá 12:00-19:00. Hægt er að kaupa árs/hálfsárs/mánaðakort hér. Annars er hægt að kaupa dagspassa á 1000kr